Tungumálakennarar í heimsókn

Vikuna 24. til 28. apríl komu tungumálakennarar í heimsókn hingað í FSN. Kennararnir koma frá École Internationale Le Verseau skólanum í Wavre í Belgíu og heita Julia, Marie, Marie og Isabel. Þessir mætu kennarar komu hingað í starfsspeglun (job shadowing) í samvinnu með AFS og Erasmus+ og voru því hér að fylgjast með hvernig kennsla og starf fer fram í verkefnamiðuðum skóla.

Skemmst er frá því að segja að heimsóknin gekk vonum framar en Belgarnir komu með sól og blíðu hingað á Grundarfjörð (þar sem lognið ferðast stundum hratt yfir) og voru því með fallegt gluggaveður alla vikuna enda kalt þrátt fyrir sólina og blíðuna.

Í skólanum sátu þau í kennslustundum og fylgdust með, spjölluðu við nemendur og kennara, og tóku almennt virkan þátt í skólastarfinu þessa vikuna. Þær mættu einnig á starfsmannafund og nutu sín afskaplega mikið með Google Translate í gangi að reyna að skilja íslensku sem, satt skal segja, var ekki mjög vel þýdd af vin okkar Google. Belgarnir vinna í nokkuð hefðbundnum skóla með aðeins ólíkri aldurssamsetningu en við höfum. Þeim fannst fyrirkomulagið hér í FSN mjög áhugavert og þá sérstaklega hve mikið frjálsræði nemendur hafa í sínu daglega amstri. Þeim fannst vissulega skrýtið fyrsta daginn að sjá allt þetta opna rými og að sjá t.d. nemendur byrja í einni kennslustund en svo færa sig um set og klára tíma í annarri kennslustund. Þeim fannst merkilegt að sjá hvernig tæknin er nýtt hér í skólanum til þess að kenna nemendum vítt og breitt um landið sem og hvernig við útdeilum bæði verkefnum sem og endurgjöfum á verkefni í gegnum moodle, TEAMS, email og þar meðfram götum.

Aldursbilið í skólanum sem Belgarnir kenna við er 12 – 18 ára, og því fórum við með þær í heimsókn hér í grunnskólann á Grundarfirði. Herdís skólaritari tók á móti okkur og sýndi hún okkur skólann og hvernig námið fer fram hjá nemendum á aldrinum 6 – 15 ára hér í bæ. Belgarnir voru mjög ánægðir með heimsóknina og þá sérstaklega fannst þeim snillismiðjan áhugaverð. Þar tóku nemendur vel á móti okkur og voru duglegir að tala ensku við kennarana og spyrja þá um allt milli himins og jarðar. Þeim fannst einnig áhugavert að sjá hversu mikil vinna sé lögð í læsi ungmenna í skólanum og fannst bókasafn skólans sérstaklega skemmtilegt og þá helst vegna þess að þar er að finna aragrúa af belgískum teiknimyndasögum, á borð við Viggó Viðutan og Tinna.

Belgarnir nýttu einnig tímann vel utan skólans. Þegar vind lægði á firðinum fóru þær í hvalaskoðun og komu í sjöunda himni heim eftir að hafa fengið að sjá aragrúa af háhyrningum og hrefnum. Þær fóru líka í ferð í kringum Snæfellsnesið og stoppuðu á öllum helstu stöðunum og áttu ekki orð yfir náttúrufegurðinni sem við heimafólkið erum kannski mörg hver hætt að sjá. Svo, til þess að toppa ferðina, þá voru norðurljós yfir Kirkjufellinu á miðvikudeginum og náðu þær að sjá og taka myndir. Allt þetta varð til þess að þessir mætu kennarar frá Belgíu yfirgáfu Grundarfjörð á föstudagsmorgni með bros á vör og í skýjunum að hafa fengið að sjá allt það sem þær höfðu óskað sér hér á Íslandi.

Fleiri myndir