Framhaldsdeild á Patreksfirði

Fjölbrautaskóli Snæfellinga – FSN, hóf rekstur framhaldsdeildar á Patreksfirði haustið 2007. Rekstur deildarinnar var þróunarverkefni til 4 ára. Í framhaldsdeildinni geta nemendur af suðursvæði Vestfjarða stundað nám á framhaldsskólastigi undir stjórn kennara í Grundarfirði með aðstoð nútíma upplýsingatækni. Starfsmaður framhaldsdeildar á Patreksfirði veitir nemendum leiðsögn á staðnum og heldur utan um starfsemina. Nemendafjöldi deildarinnar hefur aukist jafnt og þétt frá upphafi, eða frá því að vera 12 nemendur haustið 2007 í að vera 28 nemendur á haustönn 2018. Í nóvember 2009 var gerð sjálfsmatsskýrsla til kynningar á verkefninu, sem þá hafði starfað í tvö  ár. Attentus, mannauður og ráðgjöf gerði úttekt á starfsemi deildarinnar haustið 2010. Lesa má um úttekina hér

Nám og kennsla í framhaldsdeildinni byggir á aðferðum dreifmenntar, en almennt má segja að dreifmennt sé góður kostur til að brúa bil milli landshluta og gera einstaklingum kleift að stunda það nám sem þeir kjósa sér hvar sem þeir eru staddir. Sjálfstæði í námi er oft meira þar sem nemendur vinna oft án beinnar tilsagnar kennara og þurfa því að taka mikla ábyrgð á eigin námi.

Dagleg starfsemi

Námið í framhaldsdeildinni er byggt upp þannig að nemendur eru ýmist hluti af nemendahópum í FSN eða í sérstökum hópum. Öll kennsla fer fram frá Grundarfirði og eru allir kennarar deildarinnar staðsettir þar. Auk þess er einn starfmaður í framhaldsdeildinni sem aðstoða nemendur á Patreksfirði og heldur utan um starfsemina. Nemendur stunda námið að mestu í dreifnámi, með þeim tækjum og tólum sem fyrir hendi eru. Allt námsefni er lagt fyrir nemendur í gegnum námsumsjónarkerfi en þess utan hafa nemendur aðgang að kennurum gegnum Teams og tölvupósti. Kennarar stýra vinnu nemenda og eru til aðstoðar bæði í hefðbundnum tímum og verefnatímum með þeim leiðum sem fyrir hendi eru. Nám nemenda fer að miklu leyti fram með sjálfstæðri verkefnavinnu, þar sem nemendur vinna einstaklingsverkefni eða hópverkefni, ýmist með nemendum á staðnum eða í Grundarfirði. Nemendur skila öllum verkefnum gegnum námsumsjónarkerfið.

Fjölbrautaskóli Snæfellinga hefur frá upphafi haft það hlutverk að vera þróunarskóli í breyttum kennsluháttum og nýtingu upplýsingatækni í skólastarfi. Meðal þess sem greinir FSN frá öðrum hefðbundnum framhaldsskólum er að færri fastir tímar eru í stundatöflunni en í flestum öðrum skólum. Til að vega upp á móti færri tímum sækja nemendur svokallaða verkefnatíma. Í verkefnatímum getur nemandi nálgast þann kennara er hann telur sig hafa mest not af og unnið sín verkefni undir leiðsögn. Verkefnatímar nýtast  nemendum á Patreksfirði sérstaklega vel, þar sem þeir hafa þá aukið aðgengi að kennaranum með Teams eða tölvupósti.

Síðast yfirfarið 13.9.2022