Námsframvinda

  • Kennarar, umsjónarkennarar og námsráðgjafi fylgjast með ástundun nemenda. Nemendur yngri en 18 ára eru allir með umsjónarkennarar. Námsráðgjafi vinnur með kennurum þeirra nemenda sem eiga í vandræðum með að sinna náminu hvort sem það er út af skilgreindum námsörðugleikum eða öðru. Umsjónarkennarar hitta umsjónarnemendur sína reglulega og leita skýringa hjá nemendum sem sinna náminu ekki sem skyldi og hvetja þá til þess að taka sig á.
  • Nemandi í fullu námi skal ljúka 15 einingum á önn hið minnsta eða ná fullnægjandi námsárangri í námi sem svarar til 18 kennslustunda á viku og telst hann annars fallinn á viðkomandi önn. Ljúki nemandi færri einingum en 15 tvær annir í röð á hann ekki vísa skólavist.
  • Um námsframvindu gilda eftirfarandi viðmið:
    • Ef nemandi hefur undir 5 í þremur eða fleiri greinum við annarskil og/eða að vera með mætingu undir 80% þá fær nemandinn formlega áminningu.
    • Ef slakur árangur við annarskil er enn svipaður því sem hann var við lotuskil þá býðst nemandanum að gera samning við skólann um bættan árangur á næstu önn.
    • Standi nemandinn ekki við samninginn lítur skólinn svo á að hann hafi sagt sig frá námi.
    • Ólögráða nemendur eru kallaðir á fund skólastjórnenda ásamt foreldrum/forráðamönnum þar sem formleg áminning er gefin eða samningur undirritaður.
    • Andmælaréttur nemandans er virtur þar sem hann getur komið fram með skýringar og/eða leiðréttingar á fundunum auk þess að geta vísað málum til skólaráðs.
  • Áfanganúmer
  • Á prófskírteini eru áfangar auðkenndir með skammstöfun námsgreinar, tölu, tveimur bókstöfum og tveimur tölum í lokin. Dæmi um slíkt er ÍSLE2MB05. ÍSLE merkir að þetta er áfangi í íslensku, 2 stendur fyrir það að áfanginn sé á öðru þrepi, MB stendur fyrir innihald áfangans og 05 er einingafjöldinn. Einingar eru framhaldsskólaeiningar skv. lögum um framhaldsskóla nr. 92/2008. Áföngum er skipt upp á þrjú þrep, fyrsta, annað og þriðja og þurfa nemendur að fara upp á þriðja þrep í mörgum námsgreinum til að geta lokið stúdentsprófi.

 

  • Einkunnir
    • Einkunnir eru gefnar í heilum tölum frá 1 til 10. Einkunnin 5 táknar að 45% til 54% námsmarkmiða hafi náðst, einkunnin 6 táknar að nemandi hafi náð 55% til 64% markmiða o.s.frv.
    • Lágmarkseinkunn er 5. Heimilt er þó að brautskrá nemanda með einkunnina 4 í einum áfanga sem gefur þá ekki einingar. Áfangi sem lokið er með einkunninni 4 getur ekki vera undanfari annarra áfanga hjá nemandanum.
    • Einkunnin S þýðir að nemandi hefur staðist áfanga án prófs og M táknar áfanga eða námskeið sem metin eru til eininga þótt kennsla hafi farið fram annars staðar en við Fjölbrautaskóla Snæfellinga. Stjörnumerktir áfangar á prófskírteini eru áfangar sem hafa verið metnir til eininga.

 

  • Önnur atriði á prófskírteini
    • Hafi nemandi lokið hluta af námi sínu við aðra skóla en Fjölbrautaskóla Snæfellinga er það tekið fram neðst á prófskírteininu.

 

 

Síðast uppfært: 21.09.2020