Kennsluhættir

Fjölbrautaskóli Snæfellinga er framhaldsskóli með sveigjanlegt og nýstárlegt námsfyrirkomulag þar sem námsrýmin eru opin og allt nám er skipulagt með aðstoð kennslukerfisins „Moodle“. Frá stofnun skólans árið 2004 hefur hann verið leiðandi í breyttum kennsluháttum og í nýtingu upplýsingatækni í skólastarfi. Þar af leiðandi tekur skipulag kennslunnar mið af þessu tvennu. Meginmarkmiðið með því að breyta kennsluháttum er að nám nemendanna verði skilvirkara – að þeir nái betri tökum á námsefninu. Með þetta að leiðarljósi eru notaðar aðferðir við kennsluna sem rannsóknir hafa sýnt að virka betur en hefðbundnar aðferðir. Þessar aðferðir eiga það allar sameiginlegt að megináherslan er á að nemendur séu sjálfir virkir í náminu þar sem það hefur komið í ljós að bestur árangur næst og nemendur læra mest þegar þeir þurfa að vinna í námsefninu og finna lausnir. Upplýsingatæknin er nýtt á margvíslegan hátt í náminu og fléttast inn í alla þætti skólastarfsins. Áhersla er lögð á sjálfstæð vinnubrögð og að nemandi tjái sig um efni áfangans bæði munnlega og skriflega. Námsmatið byggir á hugmyndum um leiðsagnarmat þar sem kennarinn er að meta vinnu nemenda frá viku til viku.

Nauðsynleg tölvuþekking:
Nemendur sem hefja nám í Fjölbrautaskóla Snæfellinga þurfa að vera tölvulæsir. Það felur í sér að þeir geti unnið á netinu, notað tölvupóst og hafi lágmarksþekkingu í algengustu tölvuforritum, s.s. Word, Excel og Powerpoint.

Dagskólanám – Fjarnám

Í Fjölbrautaskóla Snæfellinga er bæði hægt að stunda dagskólanám og fjarnám. Þegar nemendur skrá sig í dagskólanám gangast þeir undir hefðbundnar skólareglur varðandi mætingu, ástundun og verkefnaskil.

Öll kennsla í skólanum fer fram með dreifnámssniði þar sem skiptast á fastar kennslustundir og verkefnatímar. Kennslukerfið er notað til að skipuleggja kennsluna og halda utan um allar upplýsingar fyrir hvern áfanga þannig að þær eru aðgengilegar alla önnina. Nemendur skila verkefnum í gegnum kennslukerfið og taka einnig oftast próf þar. Kennarar stýra vinnu nemenda og eru til aðstoðar bæði í hefðbundnum tímum og verkefnatímum. Leitast er við að hafa verkefnavinnuna bæði fjölbreytta og skapandi.

Skipulag stundatöflu

Stundataflan er í megindráttum skipulögð þannig að í henni skiptast á hefðbundnar kennslustundir og verkefnatímar. Kennsla hefst kl. 8:30 á morgnana og lýkur kl. 15:35 nema á föstudögum kl. 14.30.

Almennt um fjarnám
Í fjarnámi eru gerðar kröfur um góða ástundun og jöfn verkefnaskil. Einnig er mikilvægt að nemendur séu í reglulegu sambandi við kennara sína, í tölvupósti, á Skype eða á Lync. Auk þess er fjarnemendum frjálst að mæta í skólann eins oft og þeir vilja og geta þá sótt kennslustundir eða verkefnatíma og fengið aðstoð hjá kennurum.

Í framhaldsskóla ber hver og einn ábyrgð á eigin námi. Það er því þitt hlutverk að fylgjast vel með öllu því sem fram fer í áfanganum. Það er mjög mikilvægt að ef þú missir af prófi í kennslustund eða tímaverkefni sem er á dagskrá ákveðinn dag og þú ert ekki skráð(ur) veik(ur) í Innu munt þú ekki fá annað tækifæri til þess að ljúka prófinu eða tímaverkefninu. Standir þú frammi fyrir vandamálum eða aðstæðum, sem þú ræður ekki við,  hafðu þá samband við kennara í tíma fyrir skráða dagsetningu.