Um fjarnám við FSN

Nemendum býðst að skrá sig í fjarnám við skólann. Fjarnámsnemendur eru í almennum námshópum, þeir fá stundatöflu án mætingaskyldu og fylgja skóladagatali eins og aðrir nemendur.  Innritunartími er sá sami og fyrir staðnemendur en fjarnemar komast í laus námspláss þar til kennsla hefst.

Mikilvægt er fyrir fjarnemendur að vera vel meðvitaðir um að öll skilaboð, upplýsingar, skóladagatal og annað er til fjarnemenda eins og staðnemenda. Nemendur í fjarnámi fá sömu þjónustu og staðnemendur.

Vinnuframlag í fjarnámi
Í fjarnámi er nauðsynlegt að skipuleggja nám sitt vel og hvaða tíma ætlað er í námið. Hver námseining er skipulögð af kennara þannig að hann gerir ráð fyrir að nemandinn þurfi þrjá daga miðað við 6-8 klukkustunda vinnu til að ljúka henni. Fimm eininga áfangi er því miðaður við að nemandinn skili 15 daga vinnu. Henni er síðan dreift yfir önnina.

 

Upphaf náms
Fjarnemendur eru í sömu áföngum og staðnemendur. Því hefst kennsla á sama tíma og annað skólastarf. Skóladagatal á vef skólans er hið sama fyrir fjarnema og staðnema.

Nám og kennsla fara í fram í kennslukerfinu Moodle. Nemendur skrá sig sjálfir í Moodle  en fá bréf frá umsjónarkennara um það leyti sem áfangi byrjar. Ef netfang er rangt í Innu eða nemandi er skráður seint inn getur bréfið hafa misfarist og þá er mikilvægt að nemendur hafi samband við  umsjónarkennara fjarnema til að tryggja að þeir komist strax inn í kennslukerfið.

Skipulag námsáfanga
Efst í hverjum áfanga birtast eftirfarandi upplýsingar:

  • Tengill í áfangalýsingu
  • Kennsluáætlun áfangans
  • Skipulag og aðrar upplýsingar frá kennara
  • Námsmat (oft í kennsluáætlun)
  • Kennsluefni, tilvísun í kennsluefni eða upplýsingar um lesefni

Skilakassar verkefna loka kl. 23:59 á sunnudögum. Mikilvægt er að átta sig á að verkefni geta staðið yfir í lengri tíma en eina viku en fram kemur hverri viku hvaða vinnu er reiknað með af hálfu nemandans þá vikuna.

Öll verkefni gilda til lokaeinkunnar. Verkefni geta verið umræður, rituð verkefni eða munnleg, ljósmyndir, kvikmyndir, próf, tónlist eða hvað annað sem við á.

Athugið: Frestur er nánast aldrei gefinn á verkefnaskilum. Eina undantekningin eru mjög alvarleg veikindi nemanda eða fráfall náins ættingja. Skólameistari Hrafnhildur Hallvarðsdóttir er eini starfsmaðurinn sem hefur heimild til að semja um skil utan skilatíma. Fjarnemendur hafa skilafrest á verkefnum til klukkan 23:59 á sunnudögum.

Kennsla
Kennari ber ábyrgð á námsáfanga sínum,  hann skipuleggur námið og ber ábyrgð á því að námið standist kröfur og fari eftir námskrá brautarinnar. Áfanganum er lýst í áfangalýsingu sem finna má á vef skólans en nánari útlistun er í kennsluáætlun áfanga.

Kennarar beita fjölbreyttum kennsluaðferðum og því verður munur frá áfanga til áfanga hversu mikið lesefnið er, hvernig verkefnin verða, hvort og þá hversu mörg próf eru í áfanganum og annað sem við á. Kennari getur valið að leggja námsefnið fyrir eins og hann telur best. Það getur verið kennslubók, kennsluefni á neti, eigið kennsluefni, myndbönd bæði eigin fyrirlestrar eða kynningar og af netinu, myndir eða annað sem hentar hverju sinni.

Nánari upplýsingar fá nemendur í kennsluáætlun hvers áfanga.

Námsmat
Hver kennari velur hvers konar námsmat veitir bestar upplýsingar um nám nemenda. Í öllum áföngum er leiðsagnarmat og ekki sérstakur prófatími í lok annar. Þetta þýðir þó ekki að kennarar leggi ekki fyrir próf þegar það hentar. Upplýsingar um námsmat koma fram í kennsluáætlun hvers áfanga.

Mæting í kennslustundir
Allir fjarnemar eru skráðir í námshópa sem eru staðbundnir í skólanum og þeim fylgir stundatafla sem nemendur sjá í Innu. Fjarnemar geta mætt í sínar kennslustundir hvenær sem er hafi þeir tök á því en þeir hafa enga viðveruskyldu.

Umsjónarkennarar fjarnema

Við viljum að fjarnemendum vegni vel í námi og fjarnemndur hafa því umsjónarkennara eins og aðrir nemendur. Agnes Helga Sigurðardóttir, agnes@fsn.is er umsjónarkennari fjarnemenda. Beinið spurningum ykkar til hennar og hún mun vísa máli á annan starfsmann, kennara eða stoðþjónustu eftir því sem við á.

Námsráðgjöf
Námsráðgjafi skólans þjónustar fjarnemendur eins og staðnemendur. Agnes Helga Sigurðardóttir sér um námsráðgjöf fyrir nemendur, netfangið hennar er agnes@fsn.is