Prófareglur

Prófstjórn

Prófstjórn er í höndum aðstoðarskólameistara.

Próftafla – próf
Próftafla liggur að jafnaði fyrir a.m.k. tveimur vikum fyrir prófatíma. Nemendur mæta síðan stundvíslega til prófs. Komi nemandi of seint til prófs skal hann snúa sér til prófstjóra. Nemendur skulu kynna sér fyrirfram hjá kennara, þ.e. áður en kennslu lýkur hvaða hjálpargögn eru leyfileg í prófinu og skal hann hafa meðferðis þau gögn sem leyfilegt er að nota í prófi, s.s. formúlublöð, vasareikna og skriffæri.

Nemanda sem verður uppvís að svindli (notar óheimil hjálpargögn, veitir eða þiggur hjálp frá öðrum nemanda), er vísað úr prófi og hann fær falleinkunn.

Slökkt skal á farsímum í prófi og þeir mega ekki vera á prófborði. Sama gildir um önnur raftæki.

Nemendur geta haft með sér nesti en mælt er með ílátum sem ekki skrjáfar í.

Prófatími er ein klukkustund.

Lengdur próftími
Sótt er um lengri próftíma til námsráðgjafa.

Próf á pappír
Nemandi gengur úr skugga um að hann sé með rétt próf í höndunum og að ekki vanti neinar blaðsíður í prófið. Nemendur mega ekki yfirgefa rýmið sem prófað er í fyrr en klukkustund er liðin. Prófúrlausnir skal skilja eftir á borðum og sér yfirsetukennari um að safna þeim saman.

Þeir sem þurfa lituð prófblöð, stærra letur eða aðra sérþjónustu þurfa að óska eftir því eigi síðar en 2 vikum fyrir lokapróf og senda afrit af greiningu til námsráðgjafa.

Próf í tölvu
Nemendur mæti í próf 10 mínútum fyrir auglýstan prófatíma til að ræsa tölvur og skrá sig inn í kennslukerfið. Þegar nemandi lýkur prófi á hann að slökkva á tölvunni um leið. Nemendur mega ekki yfirgefa rýmið fyrr en klukkustund er liðin.

Veikindi í prófum
Komist nemandi ekki í próf vegna veikinda ber honum að tilkynna það samdægurs á skrifstofuna, og skrá sig í viðkomandi sjúkrapróf. Nemandi sem skráir sig síðar á ekki rétt á próftöku. Enginn fær að þreyta sjúkrapróf nema hann skrái sig og framvísi læknisvottorði. Sjúkrapróf eru í lok fyrri og seinni lotu.

Svindl í prófum
Nemendur sem staðnir eru að því að nota óleyfileg gögn eða veita eða þiggja hjálp í prófum, umfram það sem heimilað  er verkefnið ógilt og athugasemd skráð í Innu. Sama gildir ef nemendur afrita verkefni hver frá öðrum, þá eru verkefni beggja/allra ógild og athugasemdir skráðar í Innu. Frekari brotum verður vísað til skólameistara. Ítrekuð brot geta leitt til brottrekstrar úr skólanum.

Prófsýning og réttur nemenda
Eftir að einkunnir hafa verið birtar nemendum skulu kennarar gefa þeim kost á að yfirfara úrlausnir sínar á prófsýningardegi skólans í lok fyrri lotu og í lok annar. Ef fram kemur skekkja í mati eða einkunnagjöf skal slíkt leiðrétt. Ef nemandi telur einkunnagjöf kennara ósanngjarna á hann rétt á að vísa málinu til aðstoðarskólameistara innan þriggja daga frá prófsýningardegi. Kæra vegna prófa þarf að vera skrifleg og rökstudd. Aðstoðarskólameistari hlutast þá til um, að höfðu samráði við kennara, að hlutlaus prófdómari meti úrlausn nemandans. Úrskurður prófdómara skal gilda.

Leiðrétting einkunna
Fyrir getur komið að kennari gefi ranga einkunn, leggi vitlaust saman eða sjáist yfir verkefni. Kennari sér til þess að einkunnin sé leiðrétt í samráði við aðstoðarskólameistara og mun nemandinn þá fá nýtt einkunnablað.

Endurtektarpróf

Útskriftarnemendur sem falla í einum áfanga eiga rétt á að endurtaka próf í viðkomandi áfanga. Nemandinn öðlast ekki endurtökuprófrétt fyrr en námsárangur liggur fyrir í öðrum áföngum og að árangur hafi verið fullnægjandi.

Varðveisla prófúrlausna
Prófúrlausnir eru geymdar í eitt ár. Hið sama á við um próf/verkefni í símatsáföngum.

Síðast uppfært: 5.október 2015