Upplifun kennara af innleiðingu breyttra kennsluhátta

Hrafnhildur Hallvarðsdóttir: Upplifun kennara af innleiðingu breyttra kennsluhátta : „Maður er svo í lausu lofti með þetta“ Lokaverkefni til MA gráðu í stjórnun menntastofnana.

Ágrip:
Markmið þessarar rannsóknar var að athuga hver væri upplifun kennara við Fjölbrautaskóla Snæfellinga af innleiðingu breyttra kennsluhátta frá kennarastýrði kennslu til einstaklingsmiðaðrar kennslu.
Rannsóknin fór fram árin 2013–2014 og beitt var eigindlegri rannsóknaraðferð. Tekin voru hálf-opin viðtöl við sjö kennara skólans. Þrír þeirra höfðu starfað þar frá upphafi en hinir fjórir höfðu byrjað seinna. Einnig var stuðst við úttektir á skólanum og skýrslur sem eru á heimasíðu skólans.
Helstu niðurstöður eru þær að upphaf skólastarfsins hafi að mestu leyti tekist vel að mati viðmælenda. Flestir viðmælendanna eru sáttir við að kenna í opnu rými sem býður ekki upp á að haldnir séu hefðbundnir fyrirlestrar í kennslustundum. Það kom einnig fram hjá viðmælendum að opnu rýmin styrki tengsl á milli kennara þar sem auðvelt er að fylgjast með því sem fram fer í kennslu hjá öðrum.
Ekki er hægt að alhæfa út frá niðurstöðum rannsóknarinnar en þær gefa til kynna að efla þurfi lærdómssamfélag í Fjölbrautaskóla Snæfellinga til að festa í sessi þær breytingar sem orðið hafa á kennsluháttum. Öllum viðmælendum bar saman að meiri tíma þyrfti í samræðu á milli kennara til að deila nýjum hugmyndum og bera saman viðfangsefni sem upp kæmu í kennslunni. Einnig kom fram að kennarar virtust ekki vera alveg vissir um hver væri sýn skólans og niðurstöður benda til að skerpa þurfi sameiginlega sýn skólans. Viðmælendur eru stoltir af skólanum sínum og þeim finnst ánægjulegt að hafa fengið að vera þátttakendur í stofnun hans og koma að því þróunarstarfi sem unnið hefur verið. Flestir viðmælendur voru sammála um að rannsaka þyrfti gengi útskrifaðra nemenda skólans til að sjá hvernig nýjar kennsluaðferðir nýttust þeim í áframhaldandi námi og vinnu.