Skólinn

Fjölbrautaskóli Snæfellinga var stofnaður árið 2004 og hófst kennsla sama haust. Markmið skólans er að skapa metnaðarfullt námsumhverfi þar sem komið er til móts við þarfir hvers og eins með sveigjanlegu skipulagi. Einnig er lögð áhersla á persónuleg samskipti starfsfólks og nemenda og að nemendur mæti ávallt alúðlegu viðmóti.

Fjölbrautaskóli Snæfellinga er framhaldsskóli með sveigjanlegt og nýstárlegt námsfyrirkomulag þar sem námsrýmin eru opin og allt  nám er skipulagt með aðstoð kennslukerfisins „Moodle“. Frá stofnun skólans, árið 2004 hefur hann verið leiðandi í breyttum kennsluháttum með því að nýta sér upplýsingatækni í skólastarfi. Allt skipulag skólans tekur mið af því. Meginmarkmið breyttra kennsluhátta er að gera nám nemenda skilvirkara og að þeir nái betri tökum á námi sínu. Við kennslu eru notaðar aðferðir sem rannsóknir sýna að virki betur en hefðbundnar aðferðir. Þessar aðferðir eiga það sameiginlegt að megináhersla er lögð á uppgötvunarnám og lausnarleit nemandans  og gera hann virkari og ábyrgari í eigin námi. Upplýsingatæknin er nýtt á fjölbreyttan hátt og fléttast inn í flesta þætti skólastarfsins. Áhersla er lögð á sjálfstæð vinnubrögð nemenda og að þeir tjái sig munnlega og skriflega um innihald námsins. Hugmyndafræði leiðsagnarmats er höfð til grundvallar öllu námsmati. Hún byggir á því að vinna og verkefni nemenda eru metin reglulega með uppbyggjandi hætti.