Sakamálaáfangi í FSN

Hinrik lögreglumaður í heimsókn í sakamálaáfanganum SAKA
Hinrik lögreglumaður í heimsókn í sakamálaáfanganum SAKA

Í haust höfum við í áfanganum LÍFF2SA05 eða sakamálaáfanganum eins og við köllum hann, unnið stór rannsóknarverkefni þar sem  nemendur leystu sakamál sem kennarar bjuggu til ásamt því að vinna önnur verkefni er tengjast öflun sönnunargagna og sakamálum almennt. Þetta er í annað sinn sem Fjölbrautaskóli Snæfellinga býður upp á áfangann og er hann vel sóttur. Í ár voru einnig nokkrir fjarnemar í áfanganum en sú nýjung reyndist vel og verður vonandi hægt að bjóða fleiri fjarnemum að taka þátt næst, haustið 2024. Stóra rannsóknarverkefnið í ár tengdist heimasvæði nemenda og áttu nemendur að rannsaka glæp sem var framinn í einni af Breiðafjarðareyjum, nánar tiltekið Vestureyjum. Tilgangur þessa sögusviðs var að kynna nemendum hið merkilega svæði Breiðafjarðar, líffræði hafsins og menningu svæðisins.

Áfanginn er kenndur í samkennslu tveggja kennara, öðrum af náttúru- og raunvísindabraut og hinum af félags- og hugvísindabraut en þannig fá nemendur víðari skilning og tengingu við bæði líffræði og sálfræði. Mánudaginn 28.nóvember vorum við svo heppin að fá Hinrik Konráðsson lögreglumann á Snæfellsnesi í kennslustund til okkar. Hinrik kynnti fyrir nemendum hvað felst í starfi hans og hvernig lögreglumenn bera sig að þegar þeir koma á hugsanlegan glæpavettvang, hvernig fingraförum er safnað auk fræðslu um vettvang glæps.

Við þökkum Hinriki kærlega fyrir komuna.