Nýnemaferð Fjölbrautaskóla Snæfellinga

Á mánudagsmorgun 8.september lögðu, 16 nýnemar úr FSN, af stað með Breiðafjarðarferjunni Baldri yfir fjörðinn fagra, veðrið var frábært og sigldum við á spegilsléttum sjó. Á Patreksfirði hittum við nýnema sem stunda nám í Framhaldsdeildinni á Patreksfirði.

Ferðin byrjaði með ratleik á Patreksfirði og skemmtu nemendur sér konunglega og sáum við hópinn þjappast saman sem var eitt af markmiðum ferðarinnar. Þegar nemendur höfðu rölt um Patreksfjörð og hitt fólk á förnum vegi hoppuðum við upp í rútu og keyrðum á Tálknafjörð. Á Tálknafirði fórum við í sund í boði Tálknafjarðarhrepps, aðstaðan þar er til fyrirmyndar og skemmtu krakkarnir sér vel í sundi.

Eftir sundið var haldið á Bíldudal þar sem við áttum góða stund og borðuðum á Vegamótum. Næst þegar við komum þá vonandi höfum við enn meiri tíma til að skoða okkur um og kynnast starfsemi fyrirtækja á svæðinu.

Dagurinn endaði á því að Lions á Patreksfirði buðu okkur í bíó og fengu nemendur auðvitað popp og kók til að hafa með myndinni. Þetta var frábær dagur og krakkarnir ásamt kennurum löbbuðu í félagsheimilið á Patreksfirði þegar myndin var búin og fóru að sofa.

Daginn eftir fóru nemendur ásamt kennurum í Framhaldsdeildina á Patreksfirði og áttu þar hefðbundinn skóladag. Þar fengu nemendur sem koma úr Grundarfirði, Ólafsvík og Stykkishólmi að kynnst því hvernig nemendur frá Bíldudal, Patreksfirði og Tálknafirði sækja sinn skóla. Það er einnig mikilvægt fyrir kennara að hitta nemendur í Framhaldsdeildinni og sjá aðstöðuna og hvernig þessi flotta deild virkar.

Haldið var heim með seinni ferð á þriðjudeginum og voru það þreyttir og sælir nemendur sem mættu í skólann í Grundarfirði á miðvikudagsmorgni.

 Við þökkum þeim sem styrktu ferðina og tóku vel á móti okkur. Nemendur voru til fyrirmyndar og þökkum við þeim einnig fyrir skemmtilega daga.

Styrktaraðilar ferðarinnar: Arnarlax, Oddi, Lions og Tálknafjarðarhreppur.

 Fararstjórar og kennarar ferðarinnar voru Gunnlaugur Smárason, Gísli Pálsson og Svanhvít Sjöfn Skjaldardóttir.

Nýnemaferð á PatreksfjörðNýnemaferð á Patreksfjörð.