Nemendur rannsökuðu áhrif búsetu á félagslíf ungmenna á Snæfellsnesi

Það er mikilvægt að framboð á tómstundum sé gott og unga fólkið okkar á Snæfellsnesi geti farið á mi…
Það er mikilvægt að framboð á tómstundum sé gott og unga fólkið okkar á Snæfellsnesi geti farið á milli byggðakjarna til að taka þátt í félagslífi.

Í áfanganum RANN3EM05 – Rannsóknaraðferðir félags- og náttúruvísinda hafa nemendur unnið að fjölbreyttum rannsóknarverkefnum. Eitt þeirra, eftir Eyrúnu Lilju Einarsdóttur og Magna Blæ Hafþórsson, fjallaði um áhrif búsetu á félagslíf ungmenna á Snæfellsnesi. Markmiðið rannsóknarinnar var að kanna hvort fjarlægðir, samgöngur og framboð á viðburðum hefðu áhrif á það hversu virk ungmenni eru í félagsstarfi.

Spurningakönnun var lögð fyrir nemendur í Fjölbrautaskóla Snæfellinga. Niðurstöður sýndu að flest ungmenni telja félagslíf mjög mikilvægt og eru almennt ánægð með eigið félagslíf. Meirihluti þátttakenda þarf að ferðast 10-30 mínútur til að komast á viðburði og margir töldu að búseta hefði að einhverju leyti áhrif á þátttöku í félagslífi. Þeir þættir sem höfðu mest áhrif voru samgöngur, fjarlægðir og framboð á félagsstarfi en áhugi ungmenna á starfinu sjálfu reyndist mikilvægasti þátturinn. Í ljós kom að ungmenni í Stykkishólmi voru duglegust að mæta í skipulagt félagsstarf, sem gæti tengst betra framboði eða styttri vegalengdum. 

Þrátt fyrir ákveðnar takmarkanir, svo sem sjálfvalið úrtak og að rannsóknin náði aðeins til eins skóla benda niðurstöðurnar til þess að búseta hafi raunveruleg áhrif á félagslíf ungmenna. Samt sem áður virðast ungmenni á svæðinu finna leiðir til að viðhalda virku félagslífi þrátt fyrir hindranir. Í framtíðinni væri áhugavert að bera niðurstöðurnar saman við ungmenni á öðrum svæðum til að fá skýrari mynd af muninum eftir búsetu.