Nemandi úr FSN hlýtur styrk úr Afreks- og hvatningasjóði stúdenta Háskóla Íslands

Við erum óskaplega stolt af nemanda okkar, henni Theodóru Björk Ægisdóttur en hún var ein af 41 nýnemum í Háskóla Íslands sem hlutu styrk úr Afreks- og hvatningasjóði stúdenta Háskóla Íslands. 

Theodóra Björk útskrifaðist í maí 2020 frá FSN og hlaut þá viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur í raungreinum. Hún tók einnig virkan þátt í félagastörfum nemendafélags FSN.

Theodóra hefur hafið nám í lífefna- og sameindalíffræði og við óskum henni gæfu og góðs gengis.

Styrkirnir koma í hlut nýnema sem hafa náð framúrskarandi árangri í námi til stúdentsprófs og jafnframt látið til sín taka á öðrum sviðum, svo sem í félagsstörfum í framhaldsskóla eða listum og íþróttum. Í hópi styrkþega eru einnig nemendur sem hafa sýnt fádæma seiglu og þrautseigju og hafa, þrátt fyrir afar erfiðar aðstæður, staðið sig afar vel í námi. 

Styrkþegarnir koma úr 19 framhaldsskólum víða af landinu og innritast í 23 mismunandi námsleiðir á öllum fimm fræðasviðum Háskóla Íslands. Í þessum glæsilega hópi eru 13 dúxar og semidúxar úr framhaldsskólum landsins á síðustu misserum og árum og sjö styrkhafanna hafa hlotið Menntaverðlaun Háskóla Íslands við brautskráningar framhaldsskóla landsins.

https://www.hi.is/frettir/metfjoldi_styrkthega_ur_afreks_og_hvatningarsjodi_studenta_haskola_islands