Jóhanna María Ægisdóttir, fær styrk til náms í Háskóla Íslands

Jóhanna María Ægisdóttir, dúx frá FSN vorið 2023 hlýtur styrk til náms við Háskóla Íslands.
Jóhanna María Ægisdóttir, dúx frá FSN vorið 2023 hlýtur styrk til náms við Háskóla Íslands.

Jóhanna María Ægisdóttir er í hópi afreksnema sem fær styrk til náms í Háskóla Íslands. Jóhanna María lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Snæfellinga í vor og við óskum henni innilega til hamingju.

Í frétt á síðu Háskóla Íslands kemur fram að frá því að Afreks- og hvatningarsjóður stúdenta Háskóla Íslands var settur á laggirnar árið 2008 hefur á fimmta hundrað nýnema tekið við styrkjum úr sjóðnum. Sjóðurinn leggur áherslu á að styðja nýnema sem náð hafa framúrskarandi árangri í námi til stúdentsprófs og jafnframt látið til sín taka á öðrum sviðum, svo sem í félagsstörfum í framhaldsskóla eða listum og íþróttum. Sjóðurinn styrkir einnig nemendur sem hafa sýnt fádæma seiglu og þrautseigju. 

Í umsögn um Jóhönnu Maríu segir að hún eigi að baki tónlistarnám, bæði á píanó og í gegnum þátttöku í lúðrasveitum. Þjóðtrú og menningararfur Íslendinga hefur lengi verið áhugamál hjá Jóhönnu Maríu og lokaverkefni hennar í framhaldsskóla var vefsíða með þjóðsögum frá Stykkishólmi og nærumhverfi. Það kemur því ekki á óvart að hún innritaði sig í nám í þjóðfræði.

Frétt á heimasíðu Háskóla Íslands