Heimsókn nemenda og kennara til Tékklands

Sunnudaginn 18. september sl. héldu 12 nemendur úr Fjölbrautaskóla Snæfellinga, auk þriggja kennara, til Frenštát pod Radhoštěm í austurhluta Tékklands til að heimsækja kollega sína úr Gymnázium a Střední průmyslová škola elektrotechniky a informatiky. Heimsóknin var liður í verkefni sem skólarnir tveir hafa unnið saman og nefnist „Food for thought“, og snýr að því að kynnast því hvernig skuli sporna gegn matarsóun, stuðla að heilbrigðu mataræði, sem og að kynnast mat úr heimabyggðum og héruðum nemenda - bæði hér á Íslandi sem og í Tékklandi.

Ferðin stóð alls í 12 daga og fengu nemendur og kennarar að kynnast öllu því helsta sem umhverfi Frenstat hefur upp á að bjóða, auk þess að fá að framreiða og smakka ýmsan áhugaverðan og hefðbundinn tékkneskan mat.

Nemendum og kennurum gafst m.a. tækifæri til að klífa ófáa útsýnisstaði- og turna svæðisins, heimsækja hefðbundið miðaldaþorp sem varðveitt hefur verið í sinni upprunalegu mynd, skoða ýmis merkileg söfn og kynnast daglegu lífi tékknesku gestgjafanna sinna. 

Að tíma þeirra í Frenstat loknum tóku við tveir dagar í höfuðborg Tékklands, þar sem ferðalangarnir voru þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að upplifa þjóðhátíðardag Tékka með tilheyrandi hátíðarhöldum og húllumhæ. Þar fengu nemendur og kennarar einnig tækifæri til þess að ganga um og skoða þessa sögufrægu borg, fara á nokkur söfn og svo, auðvitað, fengu nemendur loksins tækifæri til þess að versla aðeins í einum af mörgum verslunarmiðstöðvun Tékklands en þar í landi, var okkur tjáð, eru flestar verslunarmiðstöðvar í Evrópu miðað við höfðatölu.

 Hér má sjá fleiri myndir úr ferðinni.