Dúx Fjölbrautaskóla Snæfellinga stefnir á nám í tónlist

Sara Rós Hulda Róbertsdóttir útskrifaðist frá Fjölbrautaskóla Snæfellinga með hæstu meðaleinkunn. Lj…
Sara Rós Hulda Róbertsdóttir útskrifaðist frá Fjölbrautaskóla Snæfellinga með hæstu meðaleinkunn. Ljósm. sá.

Dúx Fjölbrautaskóla Snæfellinga stefnir á nám í tónlist

Sara Rós Hulda Róbertsdóttir útskrifaðist af náttúru- og raunvísindabraut frá Fjölbrautaskóla Snæfellinga 29. maí síðastliðinn. Sara Rós fékk 9,8 í meðaleinkunn og var því dúx skólans á vorönn. En hvernig nær maður svona góðum árangri í námi? „Ætli það sé ekki bara með því að hlusta á kennarana í tímum, vera vel skipulagður og gera alltaf sitt besta, líka þegar það eru bara lítil verkefni sem gilda ekki mikið. Litlu verkefnin telja nefnilega líka,“ svarar hún. „Svo skiptir líka máli að gefa sér tíma fyrir félagslíf og að vera með vinum sínum,“ bætir hún við. Sara Rós ákvað að ljúka námi við náttúru- og raunvísindabraut til að halda öllum dyrum opnum hvað háskólanám varðar. „Ég held að þetta nám opni flestar dyr og ég vildi geta farið í raungreinanám í háskóla ef ég vildi,“ segir hún.

 

 

Starfar á dvalarheimili

Samhliða námi hefur Sara Rós unnið á Dvalarheimili aldraðra í Stykkishólmi auk þess að hafa stundað tónlistarnám frá sex ára aldri. „Ég er búin að vera að spila á píanó og læra söng. Ég var líka að æfa á franskt horn en hætti því í fyrra,“ segir hún og bætir við að tónlistin skiptir hana miklu máli og stefnir hún á að mennta sig á sviði tónlistar. Í haust ætlar Sara Rós að fara til Danmerkur í lýðháskóla á lagasmíðabraut. „Þar vona ég að ég fái að vinna með fólki sem hefur svona mikinn áhuga á tónlist eins og ég. Vonandi fæ ég líka innblástur þar frá öðru fólki og umhverfinu,“ segir Sara Rós. Aðspurð segir hún að eftir námið í lýðháskólanum í Danmörku stefni hún á háskólanám hér á landi. „Ég stefni á að fara í Listaháskóla Íslands að læra tónsmíðar. En mér þykir líka mjög áhugavert að vinna með fólki og gæti hugsað mér að læra hjúkrunarfræði eða læknisfræði. Ég hef unnið á dvalarheimilinu og það er rosalega gefandi og skemmtilegt starf sem ég mæli með að allir prófi,“ segir Sara Rós.

Afritað af vef Skessuhorns.