Breyting á reglum um sóttkví og smitgát

Heilbrigðisráðherra hefur gert breytingar á reglum um sóttkví og smitgát sem taka gildi á miðnætti í kvöld, þriðjudaginn 25. janúar. Breytingarnar hafa ekki áhrif á reglugerð nr. 6/2022 um takmörkun á skólastarfi sem gildir áfram, til og með 24.febrúar nk.

Frá miðnætti 25.janúar gilda eftirfarandi reglur um sóttkví og smitgát í tengslum við skólastarf:

Framhaldsskólar

Framhaldsskólanemar og starfsfólk framhaldsskóla sem verður útsett fyrir smiti utan heimilis, t.d. í skólastarfi, fer í smitgát. Í því felst að viðkomandi ber grímu í margmenni og þegar ekki er hægt að halda 2 metra fjarlægð, hvort heldur er úti eða inni, og forðast umgengni við viðkvæma einstaklinga. Smitgát varir í 5 daga og ekki þarf lengur sýnatöku til þess að losna úr smitgát. Áfram gilda reglur um sóttkví fyrir þá sem verða útsettir fyrir smiti vegna einstaklings á heimili. Smitaðir einstaklingar skulu áfram dvelja í einangrun.

Hefðbundinni smitrakningu hætt

Breytingar þessar hafa í för með sér að hefðbundinni smitrakningu verður hætt í leik-, grunn- og framhaldsskólum frá miðnætti í kvöld, þriðjudaginn 25. janúar. Sóttkví þeirra nemenda sem nú þegar eru í sóttkví fellur niður frá sama tíma uppfylli þeir skilyrði þess.