Í dag, 6.febrúar eru liðin 20 ár frá því ákvörðun var tekin um stofnun framhaldsskóla á Snæfellsnesi

Nemendur í 10.bekk á Snæfellsnesi í heimsókn í FSN
Nemendur í 10.bekk á Snæfellsnesi í heimsókn í FSN

Í dag 6.febrúar eru 20 ár frá því að ákvörðun menntamálaráðherra lá fyrir um að stofna ætti FSN.

Þessi dagur var hátíðisdagur á Snæfellsnesi og víða var flaggað á svæðinu – enda hafði baráttan fyrir stofnun skólans verið þó nokkuð brött og skrautleg.  Það er gaman að segja frá því að í dag er Framhaldsskólahermir og þann dag koma nemendur úr 10.bekkjum á Snæfellsnesi í heimsókn í skólann og eru hér heilan skóladag.

Samningur um framhaldsskóla á Snæfellsnesi var undirritaður af þáverandi menntamálaráðherra, Tómasi Inga Olrich, og fulltrúum sveitarfélaganna á svæðinu. Í tilkynningunni kom fram að með Fjölbrautaskóla Snæfellinga hefði verið þróuð ný hugsun i kennsluháttum, skipulagi skólastarfs og skólahúsnæði. Þessi nýi skóli gaf vissulega tækifæri til mikilla breytinga og innleiðingar á nýjum kennsluháttum. Skólinn hóf starfsemi í ágúst 2004 og hófst kennsla sama haust. Stofnendur skólans voru  fjögur sveitarfélög á Snæfellsnesi, Grundarfjörður, Helgafellssveit, Snæfellsbær og Stykkishólmsbær ásamt ríkisjóði.

Skólinn var óskabarn samfélaganna sem að honum stóðu og réðust sveitarfélögin á svæðinu í það stórvirki að byggja húsnæði yfir skólann. Hugmyndir voru uppi um að nýta upplýsingatækni og möguleika dreifmenntunar þannig að námframboð gæti orðið fjölbreytt. Skólahúsnæði átti ekki að vera með hefðbundnum kennslustofum heldur voru hönnuð opin rými auk lítilla herbergja sem ætluð voru til hópavinnu og einstaklingsvinnu. Skólinn var stofnaður til að kenna nemendum sem færu út á vinnumarkaðinn á 21. öldinni og mörg nýmæli voru boðuð bæði í kennsluháttum og allri starfsemi skólans. Í skólanum starfa allir kennarar sem dreifkennarar en með hugtakinu dreifkennarar og dreifmennt er átt við að kennarar skipuleggi kennsluna með það að markmiði að unnt sé að stunda nám í skólanum eða utan hans því sérstaða skólans átti að vera sú að námið fari fram bæði staðbundið og í fjarnámi.

Hér má sjá fréttir af ákvörðun um stofnun framhaldsskóla á Snæfellsnesi:

Framhaldsskóli á Snæfellsnesi

Mikill gleðidagur á Snæfellsnesi

Á sama tíma og ákvörðunin um skólastofnunina hafði verið tekin birtist frétt um að Vegagerðin myndi bjóða út framkvæmdir við brúar- og vegagerð yfir Kolgrafarfjörð á norðanverðu Snæfellsnesi en sú ákvörðun skipti miklu máli varðandi stofnun framhaldsskóla í Grundarfirði.