Mikael Máni Hinriksson, nemandi Fjölbrautaskóla Snæfellinga, heldur í spennandi ævintýri eftir áramót þegar hann fer sem skiptinemi til Belgíu í þrjá mánuði. Mikael hefur verið virkur þátttakandi í ýmsum erlendum samstarfsverkefnum undanfarið og fór hann m.a. nýverið með Ungmennaráði Vesturlands til Kristiansand í Noregi þar sem hann kynnti sér starfsemi félagsmiðstöðva þar í landi ásamt fulltrúum ráðsins.
Hann er einnig í hópi þeirra nemenda sem tóku á móti sænskum gestum frá Norrköping, sem komu til Íslands í haust í tengslum við samstarfsverkefni skólanna og munu sækja sænska skólann heim í vor.
Aðspurður segir hann þetta leggjast vel í sig og segist spenntur fyrir að kynnast nýrri menningu og tungumáli, að geta lært einhvað nýtt og fá að upplifa nýja hluti. Ferðin til Belgíu er því framhald á alþjóðlegri vegferð Mikaels og skólinn óskar honum góðs gengis í námi og starfi erlendis.