COVID-19

Hér fyrir neðan er samantekt þeirra frétta sem birst hafa á heimasíðu skólans í tengslum við Covid-19.

12.03.2020 kl. 14:39

Kæru aðstandendur

Þegar nemendur verða 18 ára þá lokast á aðgang aðstandenda í Innu. Þessa dagana, þegar mikið er um upplýsingar bæði í Innu og í gegnum tölvupóst, þá getur verið hjálplegt að veita foreldrum aðgang. Til að gera það fer nemandinn í Ég í Innu og þar er valið Aðstandendur og smellt á blýantinn. Myndir af þessu eru sýndar í Innu nemenda undir aðstoð/Nemendur. Þar með komast aðstandendur með sínum rafrænu skilríkjum inn í Innu og eru einnig komnir á póstlista.

12.03.2020 kl. 14:00

Kæru nemendur
Eins og þið vitið þá er alvarleg veira að ganga yfir (COVID-19) og höfum við tekið þá ákvörðun að fresta ballinu í kvöld. Við ætlum þó að halda Árshátíðina okkar í Fjölbrautaskóla Snæfellinga eins og áætlað var. 

Full dagskrá í boði árshátíðarnefndar, árshátíðarvídeó, tilnefningar og skemmtiatriði hjá æðislegum kynnum kvöldsins, Hadda Padda og Erni og fullt af öðrum atriðum verða sýnd. Einnig verða rútuferðir frá Stykkishólmi og Snæfellsbæ í boði FSN, þarf þó að skrá sig í rútur á Facebook hóp Nemendafélagsins. Brottfarartímar rútanna eru eins og hér segir:

  • Hellissandur kl. 18:45
  • Rif kl. 18.48
  • Ólafsvík 18:56
  • Stykkishólmur kl. 18.45
  • Brottför til baka að lokinni skemmtun.

Húsið opnar klukkan 19:00 og skemmtunin byrjar kl. 19:30. Elsa og Grétar sjá um matinn í kvöld og er matseðillinn glæsilegur, lambakjöt, svínakjöt og meðlæti og að sjálfsögðu gómsætur eftirréttur. 

Þeir sem keyptu miða á ballið hafa tvo valkosti; annars vegar að eiga inni ballmiða fyrir næsta ball eða fá miðaverðið endurgreitt.  Endurgreiðsla miðanna fer fram mánudaginn 16. mars í verkefnatíma.

Það er von okkar að við skemmtum okkur öll vel í kvöld. Gangið hægt um gleðinnar dyr og engin knús og kossar en elskum samt hvort annað. 

Áslaug Stella forseti NFSN
Aníta Elvan formaður árshátíðarnefndar
Elva Björk formaður skemmtinefndar
Hrafnhildur Hallvarðsdóttir skólameistari
Sólrún Guðjónsdóttir aðstoðarskólameistari

10.03.2020 kl. 07:43

Upplýsingar af vef menntamálaráðuneytisins

08.03.2020 kl. 22:34

Nú hefur embætti landlæknis lýst yfir neyðarstigi almannavarna vegna Covid-19 veirusmits. Mikilvægt er að fylgja í hvívetna leiðbeiningum embættisins. Viðbragðsáætlun og viðbragðsleiðbeiningar FSN má sjá á vef skólans á forsíðu.

Nemendur og starfsfólk sem hafa kvef eða inflúensueinkenni eru hvött til að vinna heima líkt og við gerum á óveðursdögum og nemendur tilkynna forföll á netfangið fsn@fsn.is

Gætið þess að vinnuhraða verður ekki breytt og engir frestir gefnir á verkefnaskilum en kennarar verða aðgengilegir eftir þeirra fyrirmælum í Moodle. 

Allir þurfa að gæta einstaklega vel að öllu hreinlæti, handþvotti og sprittun. Afgreiðsla í mötuneyti breytist þar sem ekki verður lengur hægt að skammta sér sjálfur heldur verður skammtað fyrir fólk.

Þetta er verkefni okkar allra, við þurfum fyrst og fremst að standa saman, sýna ábyrgð til að tryggja að þau sem eru í samfélagi okkar og veikir fyrir, séu verndaðir eins og kostur er. Ekki er talið líklegt að ungt og hraust fólk lendi í vanda þó það fái veiruna.

05.03.2020 kl. 10:44

Vegna COVID-19 veirunnar hefur Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra lýst yfir hættustigi almannavarna.

Ég vil minna á að við þurfum öll að fara eftir leiðbeiningum yfirvalda. Þar er fyrst og fremst lögð áhersla á hreinlæti og að þvo hendur reglulega með vatni og sápu, sérstaklega fyrir máltíðir. Einnig er minnt á að sleppa handaböndum og faðmlögum.

Það er búið að setja Viðbragðsáætlun FSN á vefinn. Þið kynna skuluð kynna ykkur viðbragðsáætlunina. Nýjar upplýsingar fara á vef skólans og facebook síðu jafnóðum og þær berast. Vinsamlega fylgist með.

02.03.2020 kl. 13:14

Leiðbeiningar um handþvott

Sjá stærri mynd

Handþvottur er mikilvægasta sýkingavörnin sem hægt er að viðhafa því snerting, bein og óbein, er lang algengasta smitleið sýkla milli manna.  Með höndunum snertum við allt umhverfi okkar og með þeim komast sýklar inn í slímhúð í munni, nefi, augum og kynfærum og geta valdið sýkingu.  Með höndunum geta sýklar komist í matvæli og borist þannig yfir í aðra.  Vandaður handþvottur er því afar mikilvægur hvort sem honum er beitt til að vernda sjálfan sig eða umhverfið.

Aðferð til að nota við handþvott og handsprittun

  • Endurtakið a.m.k. fimm sinnum hvert atriði handhreinsunarinnar
  • Stöðluð aðferð sem tryggir að ekkert svæði handanna verði útundan